GT Bible Studies    

    Iceland    


Navigation Glad Tidings Bible Studies in Icelandic

5. Jesús og blindi beiningamaðurinn Markús 10:46-52



Bakgrunnsupplýsingar:
Eftir því sem við best vitum þá kom Jesús aðeins einu sinni til Jeríkó. Það var á síðustu ferð hans til Jerúsalem. Jesús var beinn afkomandi Davíð konungs sem hafði ríkt yfir Ísrael þúsund árum áður. Á þessum tíma voru ekki margir sem vissu þetta. Þarna var landið hernumið af Rómverjum og þar að auki þoldu þeir ekki að neinn minntist á fyrri konunga Ísraels.
Bartímeus hafði ekki verið blindur alla ævi heldur hafði hann glatað sjóninni einhvern tíma. (Jóh 9.32) Við vitum ekki hvað hann hét í raun og veru því Bartímeus þýðir einfaldlega „sonur Tímeusar“.

1. Hvað heldur þú: Getur manneskja verið hamingjusöm ef hún er blind og verður að sjá fyrir sér með betli?
  • Hvað hefði getað gert Bartímeus hamingjusaman í smástund?
  • Hvað breytist í lífi manneskju sem hefur misst sjónina?
  • Ímyndaðu þér að þú verðir að sjá fyrir þér með því að betla niðri í bæ þar sem þú býrð. Hvað heldur þú að yrðir erfiðast fyrir þig?

    2. Sagt er að ef manneskja geti ekki séð að þá verði heyrnin mjög næm fyrir öllum hljóðum. Hvað heldur þú að Bartímeus hafi lært um heiminn í kring bara með því að sitja við vegarbrúnina?
  • Hvað hafði Bartímeus lært um mannlegt eðli með því að hlusta á raddir og fótatak fólksins sem gekk fram hjá honum?
  • Hvað hafði Bartímeus líklega lært um störf Jesú síðustu þrjú ár?

    3. Hvers vegna fór ekki neinn með Bartímeus til að hitta Jesú sem kom til Jerúsalem (um 30 km í burtu) á hverju ári á páskahátíðinni?
  • Hvers vegna vill fólk yfirleitt ekki vera vinir betlara?

    4. Eins og sjá má kallaði fólk Jesú einfaldlega „Jesú frá Nasaret“. Veltu upp nokkrum möguleikum hvernig Bartímeus hefði getað ályktað/lært að hann var sonur Davíðs og arftaki Ísraelsríkis. (47)
  • Páskahátíðin var eftir nokkra daga og rómverskir hermenn voru úti um allt. Hvers vegna var Bartímeus ekki hræddur við þá heldur hrópaði eins og lungun leyfðu um væntanlegan konung Ísraels?

    5. Bartímeus gæti hafa skipulagt fyrir fram hvernig hann næði sambandi við Jesú ef hann kæmi einhvern tímann til Jeríkó. Hvaða önnur ráð en hróp og köll hafði hann til að ná athygli Jesú?
  • Hvaða hugmynd fáum við um persónu Bartímeusar út frá þessum texta? Hvað um andlegt atgervi hans?

    6. Fólk var reitt við Bartímeus. Hugsaðu upp nokkrar ástæður fyrir því að það vildi að hann þegði. (48)
  • Hversu langt nær rödd fullorðins manns ef hann öskrar eins hátt og hann getur?
  • Hvers vegna tók einhver bara ekki í hönd Bartímeusar og leiddi hann til Jesú?
  • Berðu saman 47. og 48. vers. Hvor þessara upphrópana hefur sterkari áhrif: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ eða: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Segðu hvers vegna þér finnst önnur áhrifaríkari en hin.
  • Hvað lærði fólkið þegar það sá hvernig Jesús brást við þessu nýja tignarheiti?

    7. Ímyndaðu þér hvað gerðist innra með Bartímeusi þegar honum var ljóst að Jesús hafði heyrt hróp hans og beið eftir honum. (49-50)
  • Rétt áður hafði fólk beðið hann að þegja. Hvers vegna komu þau núna svona vel fram við hann? (49b)
  • Hvers vegna fór Jesús ekki til Bartímeusar heldur beið eftir að hitt fólkið kæmi með hann þar sem hann var staddur?

    8. Bartímeus passaði örugglega vel upp á yfirhöfn sína sem var bæði undirlag hans og ábreiða á nóttunni. Hvers vegna kastaði hann henni svona skyndilega frá sér? (50)
  • Hvernig komst Bartímeus til Jesú?

    9. Hvers vegna spurði Jesús Bartímeus svona augljósrar spurningar? (51)
  • Hvers vegna var mikilvægt að blindi maðurinn ætti þessar stuttu samræður við Jesú áður en hann var læknaður? (Hvað hefði vantað/verið öðruvísi ef það hefði verið farið beint úr 50. versi yfir í 52. vers?)
  • Jesús leggur líka sömu spurningu fyrir þig. Það er þess vegna sem hann leiddi þig að þessum Biblíulestri. Svaraðu nú einlæglega í hjarta þínu þessari spurningu: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ (51)

    10. Hvað var einstakt við það hvernig Jesús læknaði augu blinda mannsins? (52)
  • Hægt er að þýða upprunalega gríska versið á tvo vegu: „Farðu, trú þín hefur læknað þig,“ og „Farðu, trú þín hefur bjargað þér.“ Hvernig sýndi þessi bjargandi og læknandi trú sig í hegðun Bartímeusar?
  • Hvers vegna var Bartímeus ekki kyrr í Jeríkó heldur fylgdi Jesú til Jerúsalem? (52b) Hvað langaði hann til að sjá eða gera þar?
  • Bartímeus fylgdi Jesú á ferðinni og líklega alla leið til Jerúsalem. (52b) Hvers vegna heldur þú að hann hafi gert það?
  • Næsta dag hrópuðu allir og kölluðu Jesú son Davíðs þegar hann reið inn í Jerúsalem. (Mark 11.9-10) Hvers vegna var fólk ekki lengur hrætt við Rómverjana?
  • Innan viku eftir að hafa fengið sjónina aftur þá varð Bartímeus vitni að því að velgjörðarmaður hans var negldur á kross. Hvað heldur þú að dauði Jesú hafi þýtt fyrir hann?


    Glad Tidings spurning:
    Næsta dag kallaði allt fólkið Jesús son Davíðs þegar hann reið inn í Jerúsalem á asna. Þetta gerðist því fólkið hafði séð Jesú taka við þessari nafnbót í Jeríkó. Aðeins viku eftir þennan atburð sá Bartímeus Jesú negldan á kross. Seinna skildi hann áreiðanlega að það gerðist vegna synda hans – og okkar.
  • (Spurning fyrir alla): Hvað var það mikilvægasta sem þú lærðir af textanum í þetta skiptið?

    ***

       
    Downloads    
    Contact us    
    Webmaster