GT Bible Studies    

    Iceland    


Navigation Glad Tidings Bible Studies in Icelandic

8. Fleiri dæmisögur Jesú: Hver er náungi minn? Lúkas 10:25-37Bakgrunnsupplýsingar:
Fjallvegurinn á milli Jerúsalem og Jeríkó var 30 km langur og mjög hættulegur vegna ræningja sem sátu um ferðamenn.
Levíti var maður sem var nokkurs konar húsvörður í musterinu. Á tímum Jesú áttu gyðingar í útistöðum við Samverja sem bjuggu í sama landi. (Hugsaðu um hliðstæður í þínu eigin landi.)

1. Getur manneskja verið hamingjusöm ef henni er alveg sama um þjáningar meðbræðra sinna heldur hugsar aðeins um sjálfa sig og fjölskyldu sína?
 • Hversu oft gefur þú peninga til að hjálpa þeim sem þess þurfa?

  2. Í fyrri biblíulestri lásum við um stjórnmálamann sem spurði Jesú sömu spurningar og lögvitringurinn í þessum texta. Hver er vegurinn til himnaríkis, samkvæmt því sem Jesús segir í þessum texta? (25-27)
 • Hverjar eru þínar líkur á að komast inn í himnaríki ef forsendur/skilmálar eru þeir sem Jesús telur upp í 27. versi?

  3. Jesús segir sögu af manni sem ræningjar börðu til óbóta. Ímyndaðu þér hugsanir slasaða mannsins þegar hann lá svo klukkustundum skipti við vegbrúnina. (30)
 • Hvað gætu kona hans og börn hafa hugsað þegar faðirinn kom ekki heim á áætluðum tíma?

  4. Hvers vegna var hættulegt fyrir þá sem fram hjá fóru að hjálpa illa leiknum manninum?
 • Presturinn og Levítinn voru á leiðinni að sinna trúarlegum skyldum sínum í musterinu. Hvað heldur þú að þessi tveir menn hefðu gert ef slasaði maðurinn hefði verið þeirra eigin sonur?
 • Hugsaðu upp eins margar ástæður og þú mögulega getur fyrir því hvers vegna þessir tveir menn vildu ekki hjálpa óþekktu fórnarlambi glæps. (31-32)
 • Hvernig heldur þú að þú hefðir brugðist við í þessum aðstæðum?

  5. Hvernig túlkuðu presturinn og Levítinn boðorðið um kærleikann sem þeir höfðu kunnað frá barnæsku? Líttu á 27. vers.
 • Hvað fyndist þér um manneskju sem segði svona: „Ég elska Guð af öllu mínu hjarta en því miður hef ég ekki möguleika á að hjálpa öðru fólki.“

  6. Ef Samverjinn hefði farið fram hjá stórslösuðum gyðingnum, hvernig hefði hann getað afsakað/varið gjörðir sínar? Sjá bakgrunnsupplýsingar.
 • Á hvaða hátt gerði Samverjinn jafnvel meira en nokkur gæti hafa búist við í slíkum aðstæðum? (33-35)

  7. Tveir denarar voru tveggja daga laun, sem jafngildir einum þrettánda hluta af meðalmánaðarlaunum. Fyrir þá upphæð var hægt að vera á gistihúsi í tvo heila mánuði. Um það bil hversu mikið væru tveir denarar í íslenskum krónum?
 • Hugsaðu um mögulegar ástæður þess hvers vegna Samverjinn gaf ókunnugum manni slíka upphæð. (35)
 • Hvað finnst þér: Hversu mörg prósent af kærleiksboðorðinu uppfyllti samverski ferðamaðurinn? Sjá 27. vers.

  8. Hvern er Jesús að tala um þegar hann notar orðið „náungi“?
 • Hvaða nærstöddum og fjarstöddum náungum ættir þú að hjálpa?

  9. Ef þér væri boðið að velja eitt hlutverk í þessari dæmisögu hvert heldur þú að myndi henta þér best? Maðurinn sem ráðist var á, ræningi, presturinn, Levítinn eða gestgjafinn á gistihúsinu? Komdu með rök fyrir vali þínu á þessu tiltekna hlutverki.
 • Á hvaða hátt svipar Jesú til Samverjans í þessari dæmisögu?
 • Á hvaða hátt svipar Jesú til lúbarða gyðingsins?
 • Jesús bjó til aðra leið til himna en þá sem lýst er í 27. versi. Hvaða leið er það?


  Glad Tidings spurning:
  „Far þú og ger hið sama,“ sagði Jesús – og fór og gerði hið sama sjálfur. Jafnvel þótt fólk hafi alltaf gengið fram hjá þér án þess að skeyta um sorgir þínar og erfiðleika, þá gerir hann það ekki. Hann stendur núna við hliðina á þér og vill lækna hjartasár þín. Hverju svarar þú honum? (Þú getur svarað innra með þér í hjarta þínu.)
 • (Spurning fyrir alla): Hvað var það mikilvægasta sem þú lærðir af textanum í þetta skiptið?

  ***

     
  Downloads    
  Contact us    
  Webmaster