START WITH THESE (Glad Tidings for Teen Agers)

1. 1. Jesús og maður með ólæknandi sjúkdóm Markús 2:1-12
2. 2. Jesús og yfirmaður skattamála Lúkas 19:1-10
3. 3. Jesús og bersynduga konan Lúkas 7:36-50
4. 4. Jesús og farsæli stjórnmálamaðurinn Markús 10:17-27
5. 5. Jesús og blindi beiningamaðurinn Markús 10:46-52
6. 6. Dæmisögur Jesú: Týndi sonurinn Lúkas 15:11-24
7. 7. Fleiri dæmisögur Jesú: Annar týndur sonur Lúkas 15:25-32
8. 8. Fleiri dæmisögur Jesú: Hver er náungi minn? Lúkas 10:25-37
9. 9. Jesús og glæpamennirnir Lúkas 23:32-43
10. 10. Jesús og efagjarni lærisveinninn Jóhannes 20:19-29

Print all lessons

© 2017 Glad Tidings Bible Studies in Icelandic - www.gladtidings-bs.com


1. Jesús og maður með ólæknandi sjúkdóm Markús 2:1-12



Bakgrunnsupplýsingar:
Á tímum Jesú voru húsþök flöt og gerð úr kalksteini og flísum. Tröppur lágu utan á húsinu upp á þakið.
Lömun á sér yfirleitt stað um miðjan aldur eða síðar vegna blæðinga í heila. Lamað fólk getur yfirleitt ekki hreyft sig eða talað.
Mannssonurinn er nafn sem Jesús notaði um sjálfan sig.

1. Telur þú að einstaklingur sem liggur í rúmi sínu, ófær um að tala og hreyfa sig, líði vel eða sé hamingjusamur?
  • Hvers konar umönnun þurfti þessi maður á halda dagsdaglega?
  • Ímyndaðu þér daglegt líf þess einstaklings sem annaðist manninn.

    2. Allir Gyðingar trúðu á Guð á þessum tíma. Hvað gæti þessi maður hafa hugsað um Guð og trúna eftir að hafa lamast?

    3. Við sjáum í 5. versi að þessi maður hafði synd á samviskunni. Hvers konar syndir getur maður drýgt þegar maður getur hvorki hreyft sig né talað?
  • Hvað finnst þér: Breyta þjáningar og veikindi okkur til hins betra eða verra sem manneskjum?

    4. Hvers vegna er erfitt að ferðast með lamaðan mann í teppi gegnum bæinn?
  • Hvers vegna fór hitt fólkið ekki út til að leyfa þeim sem báru manninn að komast að með hann til Jesú? (4)
  • Hvers vegna snéru vinirnir fjórir ekki frá og héldu heim þegar þeir sáu að ómögulegt var að komast inn um dyrnar?

    5. Hver voru tengsl þessara fjögurra manna við hinn lamaða? Veltu fyrir þér ýmsum valkostum. (3)
  • Hvað þurfti að varast þegar flytja átti lamaðan mann upp á þakið? (Sjá bakgrunnsupplýsingar um húsið.)
  • Hvers konar verkfæri þurfti til að rjúfa gat á þakið? Hvar fengu þeir þau?
  • Hvers konar athugasemdir gætu þeir hafa heyrt úr húsinu meðan verið var að rjúfa þakið?

    6. Mennirnir fjórir höfðu komið með vin sinn til Jesús svo hann fengi lækningu. Hvers vegna byrjaði Jesús á því að fyrirgefa honum syndirnar? (5)
  • Hvers vegna vann Jesús í þessari röð: Fyrst að fyrirgefa syndir og síðan að lækna?
  • Hvaða merkingu hafði það fyrir hinn lamaða að allt rangt sem hann hafði gert áður var nú fyrirgefið?

    7. Ímyndaðu þér aðstæður þar sem þú ferð til Jesú og biður hann um að leysa mesta vandamál þitt. Hvað ef hann svaraði þér: „Sonur minn/Dóttir mín, syndir þínar eru þér fyrirgefnar.“ Myndi það gleðja þig eða hryggja?
  • Ef þú ættir valið, hvort myndir þú velja: Góða samvisku eða lausn á þínum mesta vanda?
  • Hvernig breyttist afstaða hins lamaða gagnvart veikindum hans þegar hann áttaði sig á því að á endanum færi hann til himna?

    8. Í 5. versi talar Jesús ekki um trú hins lamaða heldur vina hans. Ljóst er að maðurinn sjálfur átti ekki trú áður en hann kom til Jesú. Í hvaða versi sérðu að hann fór að trúa á Jesú?
  • Hvers vegna trúðu kennarar lögmálsins að Jesús gæti ekki fyrirgefið fólki syndir þess? (7-8)

    9. Svarið spurningunni sem Jesús spyr í 9. versi.
  • Hvað kostaði það Jesú að lækna manninn? Hvað kostaði það hann að fyrirgefa honum syndirnar?
  • Hvað hefðir þú hugsað um Jesú ef þú hefðir séð með eigin augum það sem lýst er í 10.-12. versi?


    Glad Tidings spurning:
    Ef hjarta þitt ásakar þig um eitthvað sem þú gerðir rangt, heyrðu orð Jesú til þín: „Sonur minn/Dóttir mín, syndir þínar eru þér fyrirgefnar!“ Til þess að standa við þetta loforð sitt þurfti Jesús að deyja á krossinum. Hvaða merkingu hefur þetta loforð fyrir þig í dag? (Þú getur svarað innra með þér í hjarta þínu.)
  • (Spurning fyrir alla): Hvað var það mikilvægasta sem þú lærðir af textanum í þetta skiptið?

    ***


    © 2017 Glad Tidings Bible Studies in Icelandic - www.gladtidings-bs.com

    2. Jesús og yfirmaður skattamála Lúkas 19:1-10



    Bakgrunnsupplýsingar:
    Á tíma Jesú voru embættismenn þekktir fyrir óheiðarleika. Í fyrsta lagi þjónuðu þeir hernámsliðinu (Rómverjum) og í öðru lagi stungu þeir yfirleitt undan í eigin vasa hluta af skattgreiðslunum og urðu ríkir á kostnað samlanda sinna. Í 7. versi er okkur sýnt hversu óvinsæll Sakkeus var í heimabæ sínum. Þetta er eina heimsókn Jesú til Jeríkó, sem við vitum um, og átti sér stað viku fyrir dauða hans. Um það leyti hafði hann starfað opinberlega í um þrjú ár og allir vissu að á sínum tíma hafði hann valið tollheimtumann í lærisveinahópinn.

    1. Getur einhver verið hamingjusamur ef hann veit að allir álíta hann vera þjóf eða hann er raunverulegur þjófur?
  • Hvaða áhrif hafði það hugsanlega á Sakkeus að hann hafði alltaf verið lágvaxnari en hinir strákarnir? (3b)
  • Hvernig getum við/getur maður jafnað sig á því að hafa verið lagður í einelti á yngri árum?

    2. Veltu fyrir þér mismunandi ástæðum þess að Sakkeus valdi að verða embættismaður.
  • Hvernig réttlættu embættismenn hugsanlega hegðun sína þegar þeir tóku af fjölskyldum hugsanlega síðustu krónuna eða skepnuna?
  • Hvers var krafist af manni sem var orðinn yfirmaður tollskrifstofunnar í stórum bæ við þessar aðstæður? Heldur þú að góðhjartaður maður hefði getað orðið yfirmaður þar? Hvers vegna eða hvers vegna ekki?

    3. Hvernig heldur þú að Sakkeus hafi brugðist við þegar hann sá að allir í Jeríkó fyrirlitu hann? (7)
  • Yfirleitt tekur tíma að komast í stöðu yfirmanns. Ef hann var um fimmtugt átti hann trúlega uppkomin börn. Hvað ætli þau hafi hugsað um atvinnu föður síns?
  • Margt fólk endurhugsar markmið sín og gildi um fimmtugt. Hvað heldur þú að Sakkeus hafi viljað með það sem ólifað var á þessu skeiði ævi sinnar?

    4. Yfirleitt voru engin samskipti milli embættismanna og hinna trúuðu. Hvers vegna vildi Sakkeus endilega sjá Jesú? (4)
  • Menn sem njóta virðingar hlaupa aldrei á menningarsvæði Mið-Austurlanda. Hvað sýnir það um Sakkeus að hann lét sér ekki nægja að tala við Jesú heldur hegðaði sér á svo óvenjulegan hátt eins og að hlaupa og klifra upp í tré? (4)
  • Mórberjatré geta orðið jafnstór og eikartré. Hvað heldur þú: Var yfirmanni skattamála í Jeríkó alveg sama þótt hann sæist uppi í tré eða var hann að fela sig innan um laufin?

    5. Þetta var fyrsta sinn sem Jesús heimsótti Jeríkó. Hvað ætli Sakkeus hafi haldið er hann heyrði Jesú nefna nafn sitt allt í einu? (5)
  • Að borða saman er merki vináttu í þessari menningu. Hvenær ákvað Jesús að heimsækja Sakkeus? Veltu fyrir þér mismunandi möguleikum. (5)

    6. Hvernig hefði Sakkeus brugðist við ef Jesús hefði sagt við hann þegar hann stóð undir trénu: „Ef þú verður fyrst góður maður, þá skal ég verða vinur þinn.“
  • Hvernig myndir þú bregðast við ef einhver segði við þig: „Ef þú hættir slæmri breytni þinni þá vil ég verða vinur þinn.“
  • Hvers vegna breytast menn ekki við það að vera sagt að breytast?

    7. Hvers vegna lá Jesú svona á? (5)
  • Hvers vegna skammaðist yfirmaður skattamála sín ekki þegar hann prílaði niður úr trénu frammi fyrir öllum mannfjöldanum í Jeríkó? (6)

    8. Sakkeus hafði alltaf elskað peninga. Hvað breytti hjarta hans svo skyndilega? (8)
  • Reiknaðu um það bil hve mörgum prósentum af eignum sínum Sakkeus hélt fyrir sjálfan sig. (8)
  • Íbúar Jeríkó ásökuðu Jesú fyrir að heimsækja mesta illmenni bæjarins. Hvernig hefðu þau hugsanlega brugðist við ef Sakkeus hefði byggt skóla fyrir helming eigna sinna og síðan farið á milli húsa til að skila óréttlátri skattheimtu fjórfalt?

    9. Abraham er fyrsti forfaðir Gyðinga og „faðir þeirra sem trúa“ í augum kristins fólks. Hvað átti Jesús við með því að segja að Sakkeus væri „sonur Abrahams“? (9)
  • Hvað átti Jesús við með orðum sínum í 10. versi?

    10. Hvenær heldur þú að Sakkeus hafi komist til trúar á Jesú? Vísaðu í ákveðið vers.
  • Hvernig varð með refsingu fyrir allt það illa sem Sakkeus hafði gert?
  • Hvað ætli Sakkeus hafi hugsað þegar hann heyrði viku síðar að Jesús hefði dáið á krossinum?


    Glad Tidings spurning:
    Á leið sinni til Jerúsalem heimsótti Jesús Jeríkó til þess eins að hitta mesta illmenni bæjarins. Þegar hann varð vinur Sakkeusar vissi hann að honum yrði refsað í hans stað. Fyrirgefning syndanna kostaði Sakkeus ekkert og okkur ekki heldur, en kostaði Jesú lífið. Í dag Jesús segir við þig orðin í versi 10. Hverju svarar þú honum? (Þú getur svarað innra með þér í hjarta þínu.)

    ***


    © 2017 Glad Tidings Bible Studies in Icelandic - www.gladtidings-bs.com

    3. Jesús og bersynduga konan Lúkas 7:36-50



    Bakgrunnsupplýsingar:
    Í 44.-46. versi er því lýst því hvernig tekið var á móti heiðursmönnum á tímum Jesú. Fólk mataðist sitjandi eða hálfliggjandi á gólfinu og þess vegna gátu óhreinir fætur nágranna orðið til þess að fólk missti lystina.
    Athugið að samkvæmt gyðinglegum venjum sýndi kona aldrei hár sitt innan um ókunnuga karlmenn.
    Farísei merkir heittrúaðan mann sem trúir á Guð.
    Símon er ekki sá sami og einn af lærisveinum Jesú.

    1. Hvað heldur þú, getur vændiskona verið hamingjusöm? Segðu hvers vegna þú telur svo vera eða ekki.
  • Allir í bænum vissu að þessi kona seldi líkama sinn og blíðu. Veltu því fyrir þér hvaða ástæður gætu hafa gert þessa stúlku að vændiskonu?

    2. Hvað var mikilvægast í lífinu (hvaða gildi) að mati Símonar farísea?
  • Hvers vegna bað Símon ekki einhvern þjóna sinna um að þvo fætur Jesú, hann hafði þrátt fyrir allt boðið honum heim til sín? (36, 44-46)
  • Hvað gæti hafa legið að baki þegar Símon bauð Jesú til kvöldverðar heima hjá sér? Veltu fyrir þér ýmsum möguleikum. (36)

    3. Hvernig tókst konunni að laumast inn í hús Símonar, jafnvel alla leið inn í matstofuna? Íhugaðu ýmsa valkosti.
  • Alabastursbuðkur fullur af smyrslum var mjög dýr. Hvernig gæti konan hafa eignast þessa krukku og til hvers ætli hún hafi hugsað sér að nota hana? Veltu fyrir þér ýmsum möguleikum.

    4. Hvers vegna vildi þessi kona svo eindregið hitta Jesú að hún tók þá áhættu að ganga inn í hús farísea vel vitandi að hún yrði litin hornauga?
  • Á þeim tíma hafði trúað fólk ekkert samneyti við svonefnda syndara. Hvað olli því að konan taldi að Jesús væri öðru vísi?

    5. Hvers vegna vildi konan snerta Jesú? (38)
  • Hvað gerist ef rotta, snákur eða einhver sem við afneitum snertir okkur?
    *Hvað skildi/ályktaði konan af þeirri staðreynd að Jesús hindraði ekki snertingu hennar?

    6. Hvenær heldur þú að þessi kona hafi síðast grátið?
  • Hversu mörg tár heldur þú að þurfi til að þvo fætur einhvers?
  • Hvað fékk konuna til að gráta svo mikið að fætur Jesú blotnuðu?
  • Hvers vegna þurrkaði konan ekki fætur Jesú með sjali sínu eða klút, heldur með hári sínu?
  • Konan sagði ekkert einasta orð meðan kvöldverðurinn stóð yfir, hverju lýsir hegðun hennar?

    7. Í 41.-42. versi segir Jesús litla dæmisögu um um lánveitanda og skuldara hans. Lánveitandinn merkir Guð en hverra er Jesús að vísa til sem skuldara?
  • Jesús líkir synd við skuld. 500 denara skuld samsvaraði launum venjulegs manns í eitt og hálft ár. 50 denara skuld samsvaraði eins og hálfs mánaðar vinnu. Hvað yrði það mikið í okkar gjaldmiðli?
  • Gefum okkur að sérhver synd sem þú hefur drýgt samsvari skuld, t.d. 1000 krónum. Hversu mikið myndir þú skulda Guði núna? (Svaraðu fyrir sjálfan þig.)

    8. Hvers vegna fyrirleit Símon bæði Jesú og konuna? (39)
  • Hvers vegna er svo miklu auðveldara að sjá syndir annarra en sínar eigin?

    9. Hvort gerðist fyrst: Trúði hún fyrst að syndir hennar væru fyrirgefnar eða auðsýndi hún fyrst Jesú kærleika svo syndir hennar yrðu fyrirgefnar? Gefðu ástæður fyrir svörum þínum út frá 42.-43. og 47 versi.
  • Hver greiddi skuld þessarar konu gagnvart Guði?
  • Hvað varð um skuld Símonar gagnvart Guði?
  • Með hvaða gjaldmiðli greiddi Jesús skuldir allra manna?


    Glad Tidings spurning:
    Jesús þekkir allar okkar syndir en þrátt fyrir það segir hann: „Syndir þínar eru fyrirgefnar. Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“ (48. og 50. vers.) Hann og enginn annar hefur rétt á að segja þessi orð því hann greiddi fyrir syndaskuld þína með blóði sínu. Hverju svarar þú honum? (Þú getur svarað innra með þér í hjarta þínu.)
  • (Spurning fyrir alla): Hvað var það mikilvægasta sem þú lærðir í þessum biblíulestri?

    ***


    © 2017 Glad Tidings Bible Studies in Icelandic - www.gladtidings-bs.com

    4. Jesús og farsæli stjórnmálamaðurinn Markús 10:17-27



    Bakgrunnsupplýsingar:
    Aðrar sögur af Jesú segja frá því að maðurinn í þessum texta hafi ennþá verið ungur og hann hafi samt verið höfðingi/þingmaður (á hinu svokallaða stórþingi). (Matt 19:22 og Lúk 18:18.) Maðurinn vissi úr Biblíunni að eftir dauða sinn myndi honum annaðhvort hlotnast eilíft líf eða eilíf vist í víti. Taktu eftir að í þessari menningu hlupu karlmenn hvorki né krupu á kné fyrir framan annan karlmann.

    1. Hvað heldur þú: Getur manneskja verið hamingjusöm án þess að vita hvað verður um hana eftir dauðann?
  • Hvað varð til þess að þessi ungi þingmaður sýndi af sér svo óvenjulega hegðun að hlaupa til Jesú og krjúpa frammi fyrir honum? (17)
  • Áleit þessi maður Jesú vera Guð eða bara óvenjulega vitran mann? (17b-18)

    2. Hvers vegna var maðurinn ekki viss um hjálpræði sitt þrátt fyrir að hafa haldið boðorð Guðs alla sína ævi?
  • Hvers vegna erum við ekki alltaf viss um að fara til himna eftir að við deyjum?
  • Heldur þú að einhver geti verið viss um að fara til himna eftir dauðann? Segðu hvers vegna eða hvers vegna ekki.

    3. Hver af boðorðunum sem Jesús telur hér upp er erfiðast að fylgja? (19)
  • Margir stjórnmálamenn freistast til spillingar hvað varðar peninga og kynlíf. Hvernig hafði þessum manni tekist að halda sig frá öllum slíkum freistingum? (20)
  • Taktu eftir að samkvæmt Jesú verður að halda þessi boðorð, ekki aðeins í gjörðum heldur einnig í orðum og hugsunum. Heldur þú að þessum unga manni hafi í raun og veru tekist það? (19-20)?
  • Getur þú, með fullkominni hreinskilni, sagt það sama og hann segir í 20. versi?

    4. Unga stjórnmálamanninn vantaði aðeins eitt. Segðu í stuttu máli frá 21. versi og finndu út hvað það var sem hann vantaði.

    5. Jesús minnist á fjársjóð í 21. versi. Hvernig er hægt að safna fjársjóðum á himni?
  • Hver er munurinn á fjársjóði á jörðu og fjársjóði á himni?
  • Hvað hlutir eru það sem ungt fólk í dag telur venjulega vera sína dýrmætustu „fjársjóði“?
  • Hver eða hvað er þinn dýrmætasti fjársjóður? (Þú getur svarað innra með þér í hjarta þínu.)

    6. Ungi maðurinn í sögunni átti trúlega fjölskyldu og fullorðna foreldra sem hann sá fyrir. Hvað hefði orðið um þau ef hann hefði framfylgt orðum Jesú í 21. versi?
  • Ímyndaðu þér stöðuna ef þú værir í sporum þessa unga stjórnmálamanns. Myndir þú trúa að Guð gæti annast fjölskyldu þína, meira að segja eftir að þú hefðir selt húsið þitt og allar eigur þínar?
  • Gætir þú hugsað þér að gefa upp fjársjóð þinn á jörðu ef sú gjörð myndi leiða til þess að fjársjóðurinn yrði sendur til himna? (Þú getur svarað innra með þér í hjarta þínu.)

    7. Samkvæmt 21. versi þá bar Jesús kærleika til unga stjórnmálamannsins. Hvers vegna flutti Jesú honum þá svo erfið orð að maðurinn fór í burtu?

    8. Eftir að manninum varð ljóst að hann gat ekki gert það sem Jesús krafðist af honum, hvað gat hann annað gert en að fara frá Jesú? (22)
  • Hvernig hefði Jesús ef til vill svarað ef maðurinn hefði viðurkennt fyrir honum: „Fyrirgefðu mér að ég skuli elska peninga meira en þig!“

    9. Ímyndaðu þér líf unga stjórnmálamannsins þaðan í frá: Var hann hamingjusamur? Hvað hugsaði hann um varðandi dauða sinn?
  • Berðu svarið sem Jesús gaf þessum unga stjórnmálamanni saman við það sem hann gaf Pétri. (21. og 27. vers.) Voru svörin í grundvallaratriðum eins eða var munur þar á?
  • Hver kemst til himna eftir dauðann?


    Glad Tidings spurning:
    „Guði er ekkert um megn,“ þýðir þetta: Jesús gaf upp fjársjóð sinn á himnum og kom hingað til jarðarinnar til að þjást og deyja til að þú fengir aðgöngumiða inn í himininn. Stóru mistökin sem þessi maður gerði var að yfirgefa Jesú. Hvað ætlar þú að gera? (Þú getur svarað innra með þér í hjarta þínu.)
  • (Spurning fyrir alla): Hvað var það mikilvægasta sem þú lærðir af textanum í þetta skiptið?

    ***


    © 2017 Glad Tidings Bible Studies in Icelandic - www.gladtidings-bs.com

    5. Jesús og blindi beiningamaðurinn Markús 10:46-52



    Bakgrunnsupplýsingar:
    Eftir því sem við best vitum þá kom Jesús aðeins einu sinni til Jeríkó. Það var á síðustu ferð hans til Jerúsalem. Jesús var beinn afkomandi Davíð konungs sem hafði ríkt yfir Ísrael þúsund árum áður. Á þessum tíma voru ekki margir sem vissu þetta. Þarna var landið hernumið af Rómverjum og þar að auki þoldu þeir ekki að neinn minntist á fyrri konunga Ísraels.
    Bartímeus hafði ekki verið blindur alla ævi heldur hafði hann glatað sjóninni einhvern tíma. (Jóh 9.32) Við vitum ekki hvað hann hét í raun og veru því Bartímeus þýðir einfaldlega „sonur Tímeusar“.

    1. Hvað heldur þú: Getur manneskja verið hamingjusöm ef hún er blind og verður að sjá fyrir sér með betli?
  • Hvað hefði getað gert Bartímeus hamingjusaman í smástund?
  • Hvað breytist í lífi manneskju sem hefur misst sjónina?
  • Ímyndaðu þér að þú verðir að sjá fyrir þér með því að betla niðri í bæ þar sem þú býrð. Hvað heldur þú að yrðir erfiðast fyrir þig?

    2. Sagt er að ef manneskja geti ekki séð að þá verði heyrnin mjög næm fyrir öllum hljóðum. Hvað heldur þú að Bartímeus hafi lært um heiminn í kring bara með því að sitja við vegarbrúnina?
  • Hvað hafði Bartímeus lært um mannlegt eðli með því að hlusta á raddir og fótatak fólksins sem gekk fram hjá honum?
  • Hvað hafði Bartímeus líklega lært um störf Jesú síðustu þrjú ár?

    3. Hvers vegna fór ekki neinn með Bartímeus til að hitta Jesú sem kom til Jerúsalem (um 30 km í burtu) á hverju ári á páskahátíðinni?
  • Hvers vegna vill fólk yfirleitt ekki vera vinir betlara?

    4. Eins og sjá má kallaði fólk Jesú einfaldlega „Jesú frá Nasaret“. Veltu upp nokkrum möguleikum hvernig Bartímeus hefði getað ályktað/lært að hann var sonur Davíðs og arftaki Ísraelsríkis. (47)
  • Páskahátíðin var eftir nokkra daga og rómverskir hermenn voru úti um allt. Hvers vegna var Bartímeus ekki hræddur við þá heldur hrópaði eins og lungun leyfðu um væntanlegan konung Ísraels?

    5. Bartímeus gæti hafa skipulagt fyrir fram hvernig hann næði sambandi við Jesú ef hann kæmi einhvern tímann til Jeríkó. Hvaða önnur ráð en hróp og köll hafði hann til að ná athygli Jesú?
  • Hvaða hugmynd fáum við um persónu Bartímeusar út frá þessum texta? Hvað um andlegt atgervi hans?

    6. Fólk var reitt við Bartímeus. Hugsaðu upp nokkrar ástæður fyrir því að það vildi að hann þegði. (48)
  • Hversu langt nær rödd fullorðins manns ef hann öskrar eins hátt og hann getur?
  • Hvers vegna tók einhver bara ekki í hönd Bartímeusar og leiddi hann til Jesú?
  • Berðu saman 47. og 48. vers. Hvor þessara upphrópana hefur sterkari áhrif: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ eða: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Segðu hvers vegna þér finnst önnur áhrifaríkari en hin.
  • Hvað lærði fólkið þegar það sá hvernig Jesús brást við þessu nýja tignarheiti?

    7. Ímyndaðu þér hvað gerðist innra með Bartímeusi þegar honum var ljóst að Jesús hafði heyrt hróp hans og beið eftir honum. (49-50)
  • Rétt áður hafði fólk beðið hann að þegja. Hvers vegna komu þau núna svona vel fram við hann? (49b)
  • Hvers vegna fór Jesús ekki til Bartímeusar heldur beið eftir að hitt fólkið kæmi með hann þar sem hann var staddur?

    8. Bartímeus passaði örugglega vel upp á yfirhöfn sína sem var bæði undirlag hans og ábreiða á nóttunni. Hvers vegna kastaði hann henni svona skyndilega frá sér? (50)
  • Hvernig komst Bartímeus til Jesú?

    9. Hvers vegna spurði Jesús Bartímeus svona augljósrar spurningar? (51)
  • Hvers vegna var mikilvægt að blindi maðurinn ætti þessar stuttu samræður við Jesú áður en hann var læknaður? (Hvað hefði vantað/verið öðruvísi ef það hefði verið farið beint úr 50. versi yfir í 52. vers?)
  • Jesús leggur líka sömu spurningu fyrir þig. Það er þess vegna sem hann leiddi þig að þessum Biblíulestri. Svaraðu nú einlæglega í hjarta þínu þessari spurningu: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ (51)

    10. Hvað var einstakt við það hvernig Jesús læknaði augu blinda mannsins? (52)
  • Hægt er að þýða upprunalega gríska versið á tvo vegu: „Farðu, trú þín hefur læknað þig,“ og „Farðu, trú þín hefur bjargað þér.“ Hvernig sýndi þessi bjargandi og læknandi trú sig í hegðun Bartímeusar?
  • Hvers vegna var Bartímeus ekki kyrr í Jeríkó heldur fylgdi Jesú til Jerúsalem? (52b) Hvað langaði hann til að sjá eða gera þar?
  • Bartímeus fylgdi Jesú á ferðinni og líklega alla leið til Jerúsalem. (52b) Hvers vegna heldur þú að hann hafi gert það?
  • Næsta dag hrópuðu allir og kölluðu Jesú son Davíðs þegar hann reið inn í Jerúsalem. (Mark 11.9-10) Hvers vegna var fólk ekki lengur hrætt við Rómverjana?
  • Innan viku eftir að hafa fengið sjónina aftur þá varð Bartímeus vitni að því að velgjörðarmaður hans var negldur á kross. Hvað heldur þú að dauði Jesú hafi þýtt fyrir hann?


    Glad Tidings spurning:
    Næsta dag kallaði allt fólkið Jesús son Davíðs þegar hann reið inn í Jerúsalem á asna. Þetta gerðist því fólkið hafði séð Jesú taka við þessari nafnbót í Jeríkó. Aðeins viku eftir þennan atburð sá Bartímeus Jesú negldan á kross. Seinna skildi hann áreiðanlega að það gerðist vegna synda hans – og okkar.
  • (Spurning fyrir alla): Hvað var það mikilvægasta sem þú lærðir af textanum í þetta skiptið?

    ***


    © 2017 Glad Tidings Bible Studies in Icelandic - www.gladtidings-bs.com

    6. Dæmisögur Jesú: Týndi sonurinn Lúkas 15:11-24



    Bakgrunnsupplýsingar:
    Sögurnar sem Jesús sagði eru kallaðar dæmisögur.
    Arfur var aldrei greiddur út á meðan faðirinn var ennþá á lífi.
    Á tímum Jesú trónuðu hús ekki ein og sér uppi á hæð heldur stóðu þau við þröngar þorpsgötur. Eini staðurinn þar sem sem hægt var að sjá út fyrir þorpið var ofan af húsþakinu. (20)
    Eins og áður hefur verið minnst á þá hlupu karlmenn aldrei í þessum heimshluta.

    1. Getur ungur maður verið hamingjusamur ef foreldrar hans hamla frelsi hans?
  • Hvers vegna var yngri sonurinn ekki ánægður þrátt fyrir að hann ætti gott heimili og góðan föður?
  • Ef þú hefðir verið í sporum föðurins hvernig hefðir þú svarað beiðni sonar þíns? (12a)

    2. Hvers vegna duldi faðirinn vonbrigði sín og áhyggjur þó að hann vissi fullvel hvað myndi gerast ef hann leyfði syni sínum að fara? (12b)
  • Í þessari dæmisögu stendur faðirinn fyrir Guð. Sonurinn gæti hér staðið fyrir manneskju sem hefur snúið baki við Guði eftir að hafa trúað á hann og/eða verið skírður í hans nafni. Hvers vegna reynir Guð ekki að stoppa þetta barn í að ráfa burt frá honum?

    3. Hvers vegna dregst margt ungt fólk í dag að lífsháttum þessa unga manns – að vera í útlöndum aleinn, án nokkurrar ábyrgðar og með fulla vasa fjár?
  • Hvernig notaði þessi ungi maður peninga föður síns, skoðaðu 13. og 30. vers.
  • Hvers vegna eignaðist ungi maðurinn ekki neina sanna vini sem hefðu átt að standa með honum jafnvel þótt lukkan snerist gegn honum?

    4. Svín voru álitin óhrein dýr meðal gyðinga. Hvað getur ungi maðurinn hafa hugsað þegar hann varð að leita að vinnu á svínabúi? (14-15)
  • Hvers vegna mátti hann ekki einu sinni éta mat svínanna til að seðja hungur sitt? (16)

    5. Hvað varð til þess að ungi maðurinn „kom til sjálfs sín“ frekar en að fyrirfara sér í þessum hörmulegu aðstæðum? (17)
  • Í 18. og 19. versi þá má lesa játninguna sem ungi maðurinn ætlaði að færa föður sínum. Hverjar voru syndir hans gegn föðurnum?
  • Hvaða syndir hafði maðurinn drýgt „móti himninum“? (18)
  • Hvaða syndir hefur þú drýgt a) móti himninum og b) gegn foreldrum þínum? (Þú mátt svara innra með þér í hjarta þínu.)

    6. Hvers vegna ætlaði þessi ungi maður ekki að biðja föður sinn að taka aftur við sér sem syni sínum? (19)
  • Hvers konar fólk heldur yfirleitt að það sé ekki þess verðugt að kallast Guðs börn? (19)

    7. Hvað gæti faðirinn hafa hugsað þegar hann sá son sinn dragnast eftir veginum til þorpsins, berfættan og tötrum klæddur? (20)
  • Hvernig gat faðirinn þekkt son sinn úr fjarska? (20) (Sjá bakgrunnsupplýsingar.)
  • Hvað heldur þú að faðirinn hafi gert öll þessi ár sem sonurinn var í burtu? (20)

    8. Hvers vegna sagði sonurinn ekki við föður sinn allt það sem hann hafði ætlað að segja við hann? (18b-19 og 21)
  • Hvað gat sonurinn ráðið af orðum og hegðun föðurins? (22-23)
  • Hvenær fyrirgaf faðirinn syni sínum? Tiltaktu versið.
  • Hvenær fór sonurinn að trúa á kærleik og fyrirgefningu föður síns? Tiltaktu versið.
    *Hvað meinti faðirinn með orðum sínum í 24. versi?

    9. Hvernig er kærleikur Guðs ólíkur kærleika manna?
  • Hvað kennir þessi dæmisaga um sinnaskipti?


    Glad Tidings spurning:
    „Sonur minn var dauður og er lifnaður aftur.“ Jesús fór líka úr húsi föður síns og kom til jarðar, ekki til að rísa upp gegn vilja föður síns, heldur til að uppfylla hann. Þegar hann sneri heim þá var dyrum himinsins skellt framan í hann og hann varð að hrópa: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“
    Hvers vegna var syninum í þessar dæmisögu fagnað á þann hátt sem Jesú hefði átt að vera fagnað? Og hvers vegna var Jesú hafnað á þann hátt sem syninum hefði átt að vera hafnað?
  • (Spurning fyrir alla): Hvað var það mikilvægasta sem þú lærðir af textanum í þetta skiptið?

    ***


    © 2017 Glad Tidings Bible Studies in Icelandic - www.gladtidings-bs.com

    7. Fleiri dæmisögur Jesú: Annar týndur sonur Lúkas 15:25-32



    Bakgrunnsupplýsingar:
    Staðreyndin er sú að faðirinn hafði ánafnað hálfri eign sinni til eldri sonar síns þegar sá yngri fékk sinn arfshlut. (12. vers) Það var ekki föðurnum að kenna að sonur hans trúði honum ekki.

    1. Getur ungur maður verið hamingjusamur ef honum finnst að foreldrar hans elski hann ekki?
  • Hvers vegna fór eldri sonurinn ekki frá öllu saman og fór af landi brott með bróður sínum ef hann var óánægður með lífið heima?
  • Hvað heldur þú að eldri soninn hafi langað meira í en nokkuð annað í lífinu?

    2. Hvers vegna leit eldri sonurinn á sjálfan sig næstum sem þræl, þrátt fyrir að faðir hans hafi lofað honum helmingi eigna sinna? (12b, 29, 31)
  • Ef faðirinn í þessari dæmisögu á að tákna Guð og yngri bróðirinn manneskju sem kastar trúnni, hvern heldur þú að eldri bróðirinn eigi að tákna?
  • Finnst þér að faðirinn hafi komið fram við syni sína á sanngjarnan hátt?
  • Heldur þú að Guð komi alltaf fram við okkur mannfólkið á sanngjarnan hátt?

    3. Hvað gæti eldri sonurinn hafa hugsað eftir að hafa stritað á ökrunum dag eftir dag?
  • Ef þér hefur einhvern tímann liðið eins og eldri syninum í 29.-30. versi, í hvaða aðstæðum varstu þá?
  • Hver var raunveruleg ástæða þess að eldri sonurinn hélt vinum sínum aldrei veislu? (29)
  • Hvernig hefði faðirinn tekið því ef sonur hans hefði slátrað geit, kind, eða jafnvel kálfi og haldið veislu fyrir vini sína? (30-31)

    4. Hver var raunveruleg ástæða þess að eldri sonurinn missti stjórn á skapi sínu í þessum aðstæðum? (27-28)
  • Yngri sonurinn hafði þegar niðurlægt föður þeirra fyrir framan alla í þorpinu og nú gerði sá eldri það líka. Hvers vegna reiddist faðirinn ekki?
  • Hvaða hugmynd færðu um föðurinn af lestri versa 28b og 31-32?
  • Hvaða hugmynd færðu um Guð af lestri versa 28b og 31-32?

    5. Hvers vegna elskaði eldri sonurinn ekki föður sinn, þrátt fyrir að faðirinn hefði alltaf verið góður við hann?
  • Ræðið á grundvelli þessarar dæmisögu: Hvaða ástæður gætu verið fyrir því að við elskum ekki Guð?

    6. Eldri sonurinn hélt að hann hefði alltaf gert vilja föðurins. (29) Og samt sem áður; hvað ætlaðist faðirinn helst til af honum?
  • Hvað sýnir okkur að eldri sonurinn bar engan kærleika til yngri bróður síns? (30)
  • Hvern elskaði eldri sonurinn?

    7. Hvers vegna hætti Jesús að segja söguna í miðju kafi án þess að segja okkur frá því hvort eldri sonurinn fór í veisluna eða ekki? (28,32)

    8. Í dæmisögum Jesú þá vísar veisla oft til himnaríkis. Samkvæmt þessari dæmisögu: hver kemst á endanum inn í himnaríki?
  • Samkvæmt þessari dæmisögu: hverjum er það að kenna ef einhver endar ekki í himnaríki?

    9. Ímyndaðu þér aðstæðurnar þegar ungu mennirnir tveir fóru til vinnu sinnar á ökrunum næsta morgun. Hvernig leið eldri bróðurnum og hvað um þann yngri?
  • Allt fólkið í heiminum táknar annan hvorn bróðurinn í þessari dæmisögu. Hvor bróðirinn heldur þú að þú sért? (Þú getur svarað innra með þér í hjarta þínu.)


    Glad Tidings spurning:
    Jesús segir við þig: „Allt mitt er þitt.“ Á krossinum vann hann þér inn stað í himnaríki. Hann gaf þér þennan arf á skírnardegi þínum. Eldri bróðirinn trúði ekki þessu loforði heldur vann sem þræll fyrir arfi sínum.
    Trúir þú að þú fáir arf þinn frían eða reynir þú að vinna þér hann inn með góðverkum? (Þú getur svarað innra með þér í hjarta þínu.)
  • (Spurning fyrir alla): Hvað var það mikilvægasta sem þú lærðir af textanum í þetta skiptið?

    ***


    © 2017 Glad Tidings Bible Studies in Icelandic - www.gladtidings-bs.com

    8. Fleiri dæmisögur Jesú: Hver er náungi minn? Lúkas 10:25-37



    Bakgrunnsupplýsingar:
    Fjallvegurinn á milli Jerúsalem og Jeríkó var 30 km langur og mjög hættulegur vegna ræningja sem sátu um ferðamenn.
    Levíti var maður sem var nokkurs konar húsvörður í musterinu. Á tímum Jesú áttu gyðingar í útistöðum við Samverja sem bjuggu í sama landi. (Hugsaðu um hliðstæður í þínu eigin landi.)

    1. Getur manneskja verið hamingjusöm ef henni er alveg sama um þjáningar meðbræðra sinna heldur hugsar aðeins um sjálfa sig og fjölskyldu sína?
  • Hversu oft gefur þú peninga til að hjálpa þeim sem þess þurfa?

    2. Í fyrri biblíulestri lásum við um stjórnmálamann sem spurði Jesú sömu spurningar og lögvitringurinn í þessum texta. Hver er vegurinn til himnaríkis, samkvæmt því sem Jesús segir í þessum texta? (25-27)
  • Hverjar eru þínar líkur á að komast inn í himnaríki ef forsendur/skilmálar eru þeir sem Jesús telur upp í 27. versi?

    3. Jesús segir sögu af manni sem ræningjar börðu til óbóta. Ímyndaðu þér hugsanir slasaða mannsins þegar hann lá svo klukkustundum skipti við vegbrúnina. (30)
  • Hvað gætu kona hans og börn hafa hugsað þegar faðirinn kom ekki heim á áætluðum tíma?

    4. Hvers vegna var hættulegt fyrir þá sem fram hjá fóru að hjálpa illa leiknum manninum?
  • Presturinn og Levítinn voru á leiðinni að sinna trúarlegum skyldum sínum í musterinu. Hvað heldur þú að þessi tveir menn hefðu gert ef slasaði maðurinn hefði verið þeirra eigin sonur?
  • Hugsaðu upp eins margar ástæður og þú mögulega getur fyrir því hvers vegna þessir tveir menn vildu ekki hjálpa óþekktu fórnarlambi glæps. (31-32)
  • Hvernig heldur þú að þú hefðir brugðist við í þessum aðstæðum?

    5. Hvernig túlkuðu presturinn og Levítinn boðorðið um kærleikann sem þeir höfðu kunnað frá barnæsku? Líttu á 27. vers.
  • Hvað fyndist þér um manneskju sem segði svona: „Ég elska Guð af öllu mínu hjarta en því miður hef ég ekki möguleika á að hjálpa öðru fólki.“

    6. Ef Samverjinn hefði farið fram hjá stórslösuðum gyðingnum, hvernig hefði hann getað afsakað/varið gjörðir sínar? Sjá bakgrunnsupplýsingar.
  • Á hvaða hátt gerði Samverjinn jafnvel meira en nokkur gæti hafa búist við í slíkum aðstæðum? (33-35)

    7. Tveir denarar voru tveggja daga laun, sem jafngildir einum þrettánda hluta af meðalmánaðarlaunum. Fyrir þá upphæð var hægt að vera á gistihúsi í tvo heila mánuði. Um það bil hversu mikið væru tveir denarar í íslenskum krónum?
  • Hugsaðu um mögulegar ástæður þess hvers vegna Samverjinn gaf ókunnugum manni slíka upphæð. (35)
  • Hvað finnst þér: Hversu mörg prósent af kærleiksboðorðinu uppfyllti samverski ferðamaðurinn? Sjá 27. vers.

    8. Hvern er Jesús að tala um þegar hann notar orðið „náungi“?
  • Hvaða nærstöddum og fjarstöddum náungum ættir þú að hjálpa?

    9. Ef þér væri boðið að velja eitt hlutverk í þessari dæmisögu hvert heldur þú að myndi henta þér best? Maðurinn sem ráðist var á, ræningi, presturinn, Levítinn eða gestgjafinn á gistihúsinu? Komdu með rök fyrir vali þínu á þessu tiltekna hlutverki.
  • Á hvaða hátt svipar Jesú til Samverjans í þessari dæmisögu?
  • Á hvaða hátt svipar Jesú til lúbarða gyðingsins?
  • Jesús bjó til aðra leið til himna en þá sem lýst er í 27. versi. Hvaða leið er það?


    Glad Tidings spurning:
    „Far þú og ger hið sama,“ sagði Jesús – og fór og gerði hið sama sjálfur. Jafnvel þótt fólk hafi alltaf gengið fram hjá þér án þess að skeyta um sorgir þínar og erfiðleika, þá gerir hann það ekki. Hann stendur núna við hliðina á þér og vill lækna hjartasár þín. Hverju svarar þú honum? (Þú getur svarað innra með þér í hjarta þínu.)
  • (Spurning fyrir alla): Hvað var það mikilvægasta sem þú lærðir af textanum í þetta skiptið?

    ***


    © 2017 Glad Tidings Bible Studies in Icelandic - www.gladtidings-bs.com

    9. Jesús og glæpamennirnir Lúkas 23:32-43



    Bakgrunnsupplýsingar:
    Í rómverska heimsveldinu voru aðeins allra verstu glæpamennirnir krossfestir. Við getum þar af leiðandi dregið þá ályktun að mennirnir tveir hafi verið forhertir glæpamenn sem ef til vill myrtu fólk fyrir peninga.
    Messías (eða Kristur) var titill konungsins sem gyðingar höfðu beðið eftir síðan á dögum Gamla testamentisins.

    1. Getur manneskja sem skaðar aðra, annaðhvort með líkamlegu eða andlegu ofbeldi, verið hamingjusöm?
  • Hvers vegna grípur margt ungt fólk á okkar dögum til ofbeldis og nýtur þess að leggja aðra í einelti?

    2. Hugsaðu um nokkrar ástæður hvers vegna þessir tveir menn byrjuðu að grípa til ofbeldis á unga aldri.
  • Hver hefði kannski getað stoppað þessa tvo af áður en þeir voru alveg heillum horfnir?
  • Getur maður alltaf breytt hegðun sinni þegar manni skilst að hún er hættuleg, bæði sjálfum manni og öðrum?

    3. Þessir tveir glæpamenn gátu fylgst með hegðun Jesú úr meira návígi en nokkur annar. Hvaða orð hans og gjörðir gætu hafa komið þeim mest á óvart? (34-38)
  • Hvers vegna vildi Jesús verja þá sem voru að kvelja hann gagnvart sínum himneska föður? (34)
  • Gætir þú beðið fyrir þínum versta óvini: „Guð, fyrirgefðu honum/henni. Hann/Hún veit ekki hvað hann/hún fór illa með mig.“ (34)

    4. Finndu í textanum hvað mannfjöldinn, ráðamenn, rómversku hermennirnir og annar glæpamannanna hrópuðu að Jesú. (34b-39)
  • Fyrir hvað hæddi þetta fólk Jesús? (35-39)
  • Hvers vegna kom enginn af vinum Jesú honum til varnar eða studdi hann?
  • Hvað hefðir þú sagt og gert ef þú hefðir staðið við rætur krossins?

    5. Hvað kom öðrum sakamanninum til að draga þá ályktun að Jesús væri konungur og ætti eigið konungsríki? (37-28, 42)
  • Berðu Jesús á krossinum saman við aðra konunga í þessum heimi. Hvaða munur er stærstur og mest áberandi þar á milli?
  • Hvers vegna dró annar glæpamaðurinn þá ályktun að Jesús væri ekki aðeins konungur heldur að hann væri einnig Guð? (40-41)

    6. Flestir glæpamenn viðurkenna ekki að hafa gert neitt rangt. Hvað kom öðrum afbrotamanninum til að viðurkenna að dauðadómurinn væri réttlát refsing fyrir glæpi hans? (41)
  • Hvers vegna viðurkenndi hinn maðurinn ekki sekt sína, jafnvel í þessum aðstæðum?
  • Hvorn glæpamannanna skilur þú betur: þann sem viðurkenndi sekt sína eða þann sem afneitaði henni?

    7. Í 42. versi er mjög stutt bæn: „Minnst þú mín!“ Hvers vegna er okkur mannfólkinu það mikilvægt að einhver sem okkur þykir vænt um muni eftir okkur þegar við þjáumst?
  • Hvers vegna spurði þessi glæpamaður ekki strax hvort honum yrði hleypt inn í konungdæmi Jesú?

    8. Hvað gæti þessi sakamaður hafa hugsað þegar hann heyrði svörin sem Jesús gaf honum? (43)
  • Hvers vegna hleypti Jesús kaldrifjuðum morðingja inn í Paradís (eða himnaríki)?
  • Hvenær heldur þú að þessi glæpamaður hafi byrjað að trúa á Jesú? Tiltaktu versið.

    9. Ímyndaðu þér síðustu stundir þessa sakamanns sem hafði tekið trú á Jesú. Var hann hamingjusamur eða óhamingjusamur þessar klukkustundir?
  • Kannski stóð móðir, eiginkona eða barn þessa fyrrverandi glæpamanns við krossinn. Hvers konar minningu um sjálfan sig skildi maðurinn hjá fjölskyldu sinni?
  • Hvers konar vitnisburð skildi þessi maður eftir fyrir komandi kynslóðir sem hafa lesið um hann í Biblíunni?


    Glad Tidings spurning:
    Hlið Paradísar voru opnuð fyrir sakamanni en í staðinn þurfti Jesús að fara sjálfur gegnum dyr vítis. Langar þig til að biðja sömu bænar og þessi glæpamaður: „Jesús, minnst þú mín!“ Ef þú gerir það þá gefur hann þér sama svar: „Einn daginn skaltu vera með mér í Paradís.“ (Þú getur svarað innra með þér í hjarta þínu.)
  • (Spurning fyrir alla): Hvað var það mikilvægasta sem þú lærðir af textanum í þetta skiptið?

    ***


    © 2017 Glad Tidings Bible Studies in Icelandic - www.gladtidings-bs.com

    10. Jesús og efagjarni lærisveinninn Jóhannes 20:19-29



    Bakgrunnsupplýsingar:
    Tómas var einn tólf lærisveina Jesú. Hann átti sennilega tvíburabróður því nafn hans þýðir „tvíburi“.

    1. Getur fólk verið hamingjusamt á þessari jörð án þess að trúa því að líkami þess muni rísa upp úr gröfinni á hinsta degi?
  • Hvaða kostir eru við persónuleika eins og þann sem Tómas hafði? Hvað um vondu hliðarnar?
  • Hvers vegna heldur þú að Jesús hafi kosið mann eins og þennan sem einn af lærisveinum sínum?

    2. Hvað hugsuðu/héldu lærisveinarnir um Jesú, morgun og dag þessa páskadags?
  • Hvers vegna trúðu lærisveinarnir ekki á upprisu Jesú?
  • Hugsaðu upp nokkrar skýringar á því hvar Tómas gæti hafa verið þetta sunnudagskvöld, þar sem hann var ekki með hinum lærisveinunum tíu? (24)
  • Hvers vegna heilsaði hinn upprisni Jesús lærisveinum sínum með kveðjunni: „Friður sé með yður.“ (21,26)

    3. Í Gamla testamentinu hafði upprisunni verið spáð og Jesús hafði líka spáð henni sjálfur. Núna fullvissuðu tíu bestu vinir Tómasar hann um að þeir hefðu séð Jesú með sínum eigin augum. Hvers vegna trúði Tómas ekki á upprisu Jesú, jafnvel eftir að hafa heyrt alla þessa vitnisburði? (25)
  • Ef þú hefðir verið í sporum Tómasar, heldur þú að þú hefðir getað trúað á upprisuna? Færðu rök fyrir svörum þínum.

    4. Hvernig heldur þú að Tómasi hafi liðið í vikunni á eftir á meðal sinna fagnandi vina?
  • Hvers vegna var Tómas kyrr hjá vinum sínum í staðinn fyrir að halda sig út af fyrir sig þá viku?
  • Hvað hefði komið fyrir Tómas ef hann hefði yfirgefið lærisveinahópinn á þessum tíma?
  • Hvað mun koma fyrir okkur ef við yfirgefum kristið samfélag þegar við efumst um kennisetningar kristinnar trúar?

    5. Hvers vegna vildi Tómas snerta Jesú áður en hann gat trúað á upprisuna? (25b)
  • Hvernig heldur þú að Tómasi hafi liðið þegar hann heyrði sín eigin orð úr munni Jesú? (25-27)

    6. Hvaða atriði sýna okkur að Jesús var hvorki draugur né andi? (27)
  • Heldur þú að Tómas hafi í raun og veru sett fingurna í sárin á höndum og síðu Jesú?

    7. Tómas var fyrsta manneskjan í Nýja testamentinu sem kallaði Jesús Guð – ekki bara son Guðs. (28) Hvers vegna trúir allt kristið fólk í heiminum því að Jesús sé Guð?

    8. Hverja er Jesús að tala um í 29. versi?
  • Hvers vegna er mikilvægt að trúa á hjálp Guðs áður en við fáum að reyna hana?

    9. Hvernig kemur Jesús fram við manneskju sem vill trúa á hann en getur það ekki, samkvæmt þessum texta?
  • Hvernig myndir þú svara manneskju sem segir við þig: „Ég trúi á Jesú en ég trúi ekki að hann hafi líkamlega risið upp frá dauðum.“
  • Hvers vegna hrynur öll hin kristna trú ef Jesús, í sínum jarðneska líkama, reis ekki upp frá dauðum?


    Glad Tidings spurning:
    Tómas sagði við Jesús: „Drottinn minn og Guð minn!“ Getur þú gert sömu játningu frammi fyrir Jesú í dag? (Þú getur svarað innra með þér í hjarta þínu.)
  • (Spurning fyrir alla): Hvað var það mikilvægasta sem þú lærðir af textanum í þetta skiptið?

    ***


    © 2017 Glad Tidings Bible Studies in Icelandic - www.gladtidings-bs.com